Um Konnasafn

Konnasafn er vinnuvélasafn staðsett á Akureyri og stofnað af Konráði Vilhjálmssyni og afkomendum hans. Það var stofnað óformlega árið 1984 þegar Konráð keypti fyrsta safngripinn sem var Borgeit (Jarðbor) í félagi við Pálma Friðriksson. Markmið safnsins er að varðveita sögu vinnuvéla á Íslandi í máli og myndum.

Í ár eru um 70 vélar á safninu og bætast sífellt fleiri við. Það er áætlað að byggja yfir safnið á Skútum í Hörgárbyggð uþb. 2.400 m2 húsnæði og safna þar saman þeim vinnuvélum og tengdum tækjabúnaði sem annars færu forgörðum og skapað hafa sögu framkvæmda á Íslandi.

Hver kannast ekki við gamlar ryðgaðar vinnuvélar sem umhugsunarlaust er hent í brotajárn sökum þess að þær hafa engan samastað.

Okkur hafa borist gamlar myndir þar sem sjá má vélar við vinnu þegar þær voru upp á sitt besta og viljum við óska eftir fleiri myndum og minningum tengdum vélum.

Oft eru gamlar myndir jafn merkilegar og vélarnar sjálfar. Það er hægt að senda á póstfangið vinnuvelasafn (hjá) vinnuvelasafn.is eða hafa samband í gegnum facebook.

Vélarnar eru staðsettar tímabundið í Sjafnarnesi 2 á Akureyri og er fólki velkomið að koma og skoða þær. Þegar öll tilskilin leyfi hafa fengist mun safnið færast út á Skúta í Hörgárbyggð.